Ég fór full eftirvæntingar inní helgina. Hlakkaði svo til að eyða tíma með Sissó mínum, Öddunni minni og Lúnu.
Í dag Sunnudag er ég svo gersamlega tóm og búin á því. Það eru ekki nema 5 dagar síðan að ég tók þá ákvörðun að lifa. En ég hélt svo sannarlega að ég fengi aðeins meira en þessa 5 og að endurfundirnir tækju ekki svona mikið á mig. Í gær fórum við í kvennahlaupið með Önnu Maríu og Maríu Rós. Og svo fengu systurnar Lúna og Stjarna auðvitað að fara með okkur. Við tókum 2 km. með trompi en ég var algerlega búin á því. Sissó og Adda Steina gistu heima hjá tengdó en þau voru á flækingi þannig að það var ansi rólegt. Sissó minn var náttúrulega búin að undirbúa matinn og við borðuðum hrygg. Hann var fínn. En matur í mínum huga er ekki eithvað sem að skiptir máli. Ég hefði alveg eins verið ánægð með grjónagraut með kanil.
Þessa dagana er ég búin að vera mikið að hugsa um djúp málefni og kynna mér sjúkdóm minn. Er eiginlega búin að komast að því að ég held að hann sé ekki mikið skárri en sá sem að ég var áður með. Þetta verður ekki læknað með lyfjum nema að litlum hluta en restin er sálarvinna sem að ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvort að ég hafi orku í.
Í dag fórum við niður í miðbæ og röltum bara um. Ég sakna þess tíma þegar að ég var hjólandi útum allan Reykjavík og nágrenni. Maður fann svo mikinn frið og komst yfir langa vegalengd á stuttum tíma.
Ég verð að viðurkenna að ég er í algerri pattstöðu eins og staðan er í dag ...... þessi niðursveifla og ástandið á mér kom algerlega aftan að mér. Ég ætla svo sannarlega að vona að ég vakni hress á morgun því að það er stór dagur. Ég er að fara hitta Valdísi geðlækni , Magnús Sálfræðing og svo ætlum við Valey að fara í göngutúr. Mér langar mest til að skilja eftir skilaboð er veik en tökum upp þráðinn á þriðjudaginn !!!!
Deildin er vægast sagt slæm ..... þá meina ég aldur og ástand á fólkinu. Ég tek það mikið inná mig þegar að loksins maður hefur kynnst einhverjum og þá fer það bara. Eins og er sé ég ekki að ég sé að fara eitt né neitt og sé í raun og veru enga lausn á málum mínum. Ég er bara svo þreytt.
Var veik í nótt ..... fékk að ég held ofnæmiskast og leið ömurlega. Frammeftir hádegi þá gaf ég elskunum mínum restina af orkunni minni.
Núna ætla ég að fara uppí rúm og leita að innri friði.
Hafdís
Engin ummæli:
Skrifa ummæli