laugardagur, 2. apríl 2011

Komin heim í heimsókn

Jæja þá er enn ein heimsókn að baki og nokkuð erfið vika líka.

Síðasta helgi endaði frekar snögglega þarsem að ég fékk eitt af mínum illræmdu köstum með sjálfsvígshugsunum og öllu tilheyrandi. Það sem að var öðruvísi við þetta kast að það stóð í 2.5 sólahring með smá hléum þó. Mikið var gott að geta farið uppá geðdeild þarsem að maður veit að það er vel passað uppá mann og fylgst með. Ég var sett í yfirsetu en það er þegar að maður er hugsanlega líklegur til að skaða sjálfan sig. Þetta er í 1 sinn sem að þetta gerist hjá mér því að venjulega hafa köstin með tekið af á nokkrum tímum. Ég fékk hræðilega endurminningu við að láta sitja yfir mér og það endaði á því að það var samþykkt að létta á yfirsetunni og það var tékkað á mér á 15 mín. fresti. Þegar að yfir lauk þá var ég svo þreytt og svöng þarsem að ég borða lítið í svona standi. En einnig var skömmin yfir því hvað ég sagði við Sissó og hvað starfsfólkið þurfti að hafa fyrir mér. Eins og sést vantar mikið uppá sjálfstraustið og ég er algerlega brotin.

Nú annað atvik gerðist í vikunni sem að ég skammaðist mín ógurlega fyrir. Ég þurfti að fara til tannlæknis þarsem að brotnað hafði úr tönn fyrir 3 vikum og ég var búin að gera 2 tilraunir til að komast til tannsa á Akranesi en það var alltaf eithvað sem stoppaði. Ég fékk tíma hjá tannlækni á gömlu tannlæknastöðinni minni sem að ég greip fegins hendi þarsem að ég var farin að fá smá eyrnarverk og slátt. Ég er ekki fyrr mætt og læknirinn búinn að deifa og búin að setja dúkinn og gera klárt að ég fæ þetta líka fína kvíðakast. Ég hristist öll og skalf og tárin láku úr augunum. Það vildi til að þetta var tannlæknir með reynslu og hann náði að róa mig niður og svo fékk ég þessi fínu sjónvarpsgleraugu og horfði á friends. En mikið fannst mér ég vera skrítinn að lenda í þessari aðstæðu. Þetta segir bara svoldið um hvernig ég er.

Annars er ég komin í helgarfrí og planið er að vera sem lengst. Litla skottið mitt var eins og frímerki á mér og var svo blíð og góð við mömmu sína. Held að hún sé farin að gera sér grein fyrir veikleikum mömmu sinnar. Allavegana stendur hún sig eins og hetja. Fjölskyldumeðlimur hafa verið að bjarga okkur þangað til Sissó kemur heim á daginn og það gengur bara ótrúlega vel. Ég á svoldið bágt með að vera ekki að stjórnast í þessu en er orðin nokkuð góð með það núna eftir rúmar 6 vikur á spítala.

Enn er ekki komið í ljós hvenær ég fæ að fara heim. Það eru lyfjabreytingar planaðar í næstu viku og sjálfsagt vilja þau sjá hvernig næsta helgi fer. Ég hef verið að fá köstin á hálfsmánaðar fresti og ótrúlegt en satt þá hefur þetta verið svona allt þetta ár. Á síðasta ári var líka mynstur á þessum köstum mínum.

Jæja nú er skottið mitt vaknað og bíður eftir athygli. Bið að heilsa öllum og takk fyrir allar góðu kveðjurnar sem að ég hef fengið.

Kv. Hafdís

1 ummæli:

Lilja Halldórs sagði...

Knús á þig Hafdís, hugsa til þín :)