miðvikudagur, 28. september 2011

Martraðir
Það er það sem að hefur einkennt undanfarnar vikur hjá mér. Ég er góð ef að það er bara 1 á nóttu. Þetta hefur sem betur fer lagast aðeins en mikið er ég orðin þreytt á að ná ekki 1 góðri nótt. Þetta er víst tengt kvíðatöflunum sem að ég var á þannig að ég verð að þreyja þorrann og vona að þetta fari að fjara út. Held að ég sé búin með minn skammt af slæmum draumum fyrir lífstíð.

Við Sissó erum að fara saman að hitta sálfræðingin í dag. Þá ætlar hann að útskýra betur fyrir okkur hvernig þessi veikindi mín eru að fara með mig. Það er víst skýring á þessu öllu saman ..... þó að mér þyki eins og ég sé að upplifa eithvað sem að örugglega engir aðrir hafa gert þá er ég bara ekki ein um að ganga í gegnum svona nokk. En mér finnst tíminn standa í stað þessa dagana. Og ég er öll í hægagangi og næ ekki að skipta um gír. Svoldið þreytandi ..... mörg ykkar hugsa kannski ... hm.... bara sparka í rassg... á sér og koma sér úr þessu .... en ef að það væri svo auðvelt þá væri ég löngu búin að því. Mér finnst ég vera komin í vítahring sem að ég ræð ekki við lengur. Það að ná ekki að sofa góðar nætur eru eflaust að lita ástandið eins og það er en sjálfsásakanirnar um að ég eigi að geta þetta eru rosalegar. Æ..... ég veit ekki hvort að þetta makar einhverja sens fyrir einhvern. En svona er líf mitt þessa dagana.

Á mánudaginn fór ég á heimsóknavinanámskeið hjá RKÍ. En planið er að við Lúna förum í heimsóknir ef að áhugi er fyrir hendi. Ég þarf bara að fara með hana í mat sem er eiginlega bara formsatriði. Þessi hundur er nánast eins og hugur minn. Ef einhvað er þá er hún komin inní hugann manns áður en maður veit af. Hún er ótrúleg. Þessa dagana sækir hún svo mikið að vera í fanginu á mér að stundum finnst mér ég vera með tonn ofaná mér. Já þetta er skrítið. En þetta er liður í að ég fari að fara meira út á meðal fólks. Það eru án efa helling af fólki sem myndi hafa gaman af því að fá okkur í heimsókn þannig að hver veit. Kannski opnar þetta einhverjar dyr sem að hafa verið mér lokaðar framm að þessu.

Ég hafði það þó af að fara með manninum mínum á árshátíð um síðustu helgi. Verð að viðurkenna að ég var tilbúin að fara heim svona 5 mín eftir að við vorum komin á staðinn. En ég hélt það út framm að miðnætti nánast. En þetta var ágætt engu að síður svona eftir á. Ég fór í greiðslu og Helga Rós málaði mig þannig að mér leið ótrúlega vel. En að fara svona .... þetta er barasta ekki fyrir mig.

Við erum reyndar búin að ákveða að fara út að borða á Galító á föstudagskvöldið en þá á ég afmæli. Tilefnið er að sjálfsögðu það og svo líka það að það var verið að opna nýjan stað sem verður gaman að koma á. En hugurinn er strax byrjaður .... að búa til alskyns afsakanir fyrir því afhverju ég ætti ekki að fara. En ég leyfi mér ekki að komast upp með þetta. Geri þetta fyrir Sissó og stelpurnar. Það er jú von um eðlilegt líf þarna einhverstaðar í framtíðinni. Eða svo er mér sagt !

Jæja .... svona er líf mitt þessa dagana ..... mínúturnar verða að dögum og dagarnir að vikum. Ég horfi á tímann fljúga frammhjá og missi af hverri lestinni af fætum annarri. Skrítið.

Engin ummæli: